Viðbrögð við náttúruhamförum

Þegar samfélag verður fyrir miklu áfalli, standa sveitarstjórnir frammi fyrir gífurlegum verkefnum sem þær eru oft ekki búnar undir. Til þess að létta þeim það verk stóðu verkfræðistofan Rainrace og Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands að verkefninu Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN) á árunum 2006-2008. Það var unnið í samvinnu við sveitarfélög sem höfðu tekist á við afleiðingar snjóflóða eða jarðskjálfta.

LVN fjallar um endurreisn samfélaga, sem tekur við þegar fyrsta þætti viðbragða, björgun mannslífa, er lokið. Þá er gríðarlegt verk óunnið: neyðaraðstoð og uppbygging til lengri tíma, sem þarf að skilgreina, skipuleggja og framkvæma. Þau margbrotnu viðfangsefni liggja að stórum hluta hjá sveitarfélögunum, þótt aðrir gegni einnig mikilvægum hlutverkum. Markmiðið var að gefa út almennar leiðbeiningar til sveitarfélaga um neyðaraðstoð og endurreisn í kjölfar náttúruhamfara. Eftir jarðskjálftana á Suðurlandi árið 2000 höfðu sveitarstjórnarmenn lýst eftir slíkum leiðbeiningum.

Leiðbeiningarnar felast í tilögu að tímabundnu starfsskipulagi sveitarfélaga í kjölfar áfalla, ásamt gátlistum fyrir sveitarstjórnarmenn og starfsfólk. Lögð er áhersla á að hvert sveitarfélag geti stuðst við þessar almennu leiðbeiningar við gerð sértækrar áætlunar fyrir sig. Leiðbeiningarnar voru notaðar af sveitarstjórnarmönnum eftir suðurlandsskjálftana 2008 og af viðbragðsaðilum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010, auk þess sem sveitarfélög á Suðurlandi hafa á undanförnum árum nýtt þær við að móta eigin viðbragðsáætlanir. Brýnt er að sem flest sveitarfélög móti sér slíkar áætlanir og séu viðbúin áföllum. Enginn veit hver er næstur.

Verkefninu lauk með úgáfu bókarinnar Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum sem dreift var til allra sveitarfélaga með aðstoð Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hana má einnig fá prentaða í Bóksölu stúdenta við Háskóla Íslands eða með því að senda skeyti til ssf@hi.is. Hér má einnig nálgast styttri útgáfu Leiðbeininga og gátlista.

Í vorhefti tímaritsins Sveitastjórnarmál 2020 birtist greinin „Nýtum þá þekkingu sem er til staðar". Greinin fjallar um hvernig sveitastjórnir geta búið sig undir hamfarir. Greinin er byggð á verkefninu Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum sem ýmis sveitarfélög hafa haft til hliðsjónar við gerð viðbragðsáætlana síðusutu ár. Þær hamfarir sem orðið hafa frá áramótum minna á að öll samfélög geta orðið fyrir áfalli og öll sveitarfélög þurfa að vera viðbúin.