Samstarf

Eitt af meginmarkmiðum Sjálfbærnistofnunar HÍ er samstarf um viðburði, rannsóknir, námskeið osfrv. þvert á svið bæði innan og utan HÍ. Hægt er að hafa samband í gegnum sshi@hi.is sé áhugi fyrir samstarfi. 

Sjálfbærnistofnun vinnur náið með Meistaranámi í Umhverfis- og auðlindafræðum og eru ýmis meistaraverkefni nemenda unnin í samstarfi við Sjálfbærnistofnun. Einnig er gott samstarf við aðrar þverfræðilegar rannsóknarstofnanir, einkum Alþjóðamálastofnun, Rannsóknarstofnun í kvenna- og kynjafræðum, EDDU öndvegissetur og Rannsókarstofnun í lýðheilsuvísindum.

Samstarfsverkefni:

Rannsóknasetur um norðurslóðir og Sjálfbærnistofnun HÍ bjóða í samstarfi við fleiri aðila upp á nýtt og spennandi námskeið fyrir framhaldsnema þar sem ætlunin er að þjálfa fólk í takast á við þær flóknu áskoranir sem blasa við samfélögum og í umhverfismálum á norðurslóðum. Námskeiðið er þverfræðilegt og opið meistara- og doktorsnemum af öllum fræðasviðum en opnað verður fyrir umsóknir aftur haustið 2023.

Námskeiðið heitir ARCADE: The Arctic Academy for Social and Environmental Leadership en þar er leitast við að finna nýstárlegar leiðir til þess að takast á við áskoranir norðurslóða á umbrotatímum. Áhersla er á að efla leiðtogahæfni þátttakenda og skapandi lausnir frá þverfræðilegu sjónarhorni. Námskeiðið samanstendur af þremur staðbundnum vikulöngum námskeiðum á Íslandi, í Noregi og á Grænlandi. 

Að verkefninu koma Rannsóknasetur um norðurslóðir og Sjálfbærnistofnun HÍ í  samstarfi við Ilisimatusarfik - Grænlandsháskóla, UiT Norges arktiske universitetí Tromsø, The Arctic Initiative við Kennedy-skólann við Harvard-háskóla og Hringborð norðurslóða, Arctic Circle.
 

Nánar um ARCADE á vef rannsóknaseturs um norðurslóðir

Kynningarmyndband um ARCADE

Snjallræði er 16 vikna vaxtarrými (e. incubator) sem styður við öflug teymi sem brenna fyrir lausnum á áskorunum samtímans og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það geta til að mynda verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, bættu menntakerfi og jafnréttismálum. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með reyndum mentorum.

Markmið vaxtarrýmisins er að ýta undir nýsköpun sem tekst á við áskoranir samtímans og er þannig mikilvægur vettvangur fyrir samfélagssprota. Áhersla er á að ýta undir sjálfbærni í nýsköpun og byggja upp sprota sem styðja með beinum hætti við eitt eða fleiri af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna allt frá fyrstu skrefum.

Leitt að Alþjóðamálstofnun HÍ í samstarfi við Sjálfbærnistofnun og fleiri góða aðila innan og utan HÍ. Sjá nánar á heimasíðu Snjallræðis

Loftslagsleiðtoginn er hreyfiafl sem hefur það að markmiði að fræða og valdefla einstaklinga í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Loftslagsmál eru í eðli sínu flókin og tengjast svo til öllu sem við gerum í nútímasamfélagi. Við getum öll haft áhrif á nærumhverfi okkar og látið til okkar taka, bæði með daglegum athöfnum sem og að hvetja aðra til þess að gera slíkt hið sama. Eitt af markmiðum Loftslagsleiðtogans er því að leita leiða og hvetja til beinna og óbeinna aðgerða í baráttunni við loftslagsvána.

Stærsta verkefni Loftslagsleiðtogans er útivistar- og fræðslunámskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára sem felst í fræðslu, leiðangri og leiðtogaþjálfun.

Loftslagsleiðtoginn er hugarfóstur Salome Hallfreðsdóttur, Hafdísar Hönnu Ægisdóttur og Vilborgar Örnu Gissurardóttur og byggist m.a. á þekkingu þeirra og ástríðu fyrir náttúrunni, náttúruvernd, útivist, fræðslu og miðlun. Loftslagsleiðtoginn hlaut styrk frá Loftslagssjóði 2021.

Vefur Loftlagsleiðtogans