Náttúruhamfarir og heilsa
Á síðustu öld urðu 65 sinnum náttúruhamfarir á Íslandi, sem ollu eignatjóni og/eða urðu mönnum að aldurtila. Meira en 90 manns týndu lífi, og eru þá ekki taldir þeir sem urðu úti eða fórust á sjó.
Þótt eldgos væru langtíðust, fórust 9 af hverjum tíu í snjóflóðum.
Almannavarnir hér á landi eru vel skipulagðar og skilvirkar og eru fyrstu viðbrögð við leit og björgun með því besta sem gerist.
Hins vegar er það aðeins á síðustu árum sem athygli hefur verið beint að langtímaáhrifum náttúruhamfara, og að því hvernig best verður staðið að endurreisn samfélaga eftir stóráföll.
SSF hefur staðið að rannsóknum á þessu sviði, ekki síst með öndvegissetrinu NORDRESS, sem skoðar viðnámsþrótt við náttúruhamförum frá mörgum sjónarhornum, en einnig var gerð viðamikil rannsókn á langtímaviðbrögðum við náttúruhamförum, og einkum að þætti sveitarstjórna í því ferli, sem skilaði leiðbeiningum að aðgerðir í kjölfar stóráfalla. Loks hafa verið gerðar margvíslegar rannsóknir á áhrifum eldgosa á heilsu.
Stofnun Sæmundar fróða hefur staðið fyrir rannsóknum á áhrifum eldgoss á heilsu frá því Eyjafjallajökull gaus árið 2010.
Sama ár var gerð rannsókn á áhrifum gossins á líðan íbúa undir Eyjafjöllum með því að senda spurningalista til um 2000 íbúa á suðurlandi og 700 manna samanburðarhóps í Skagafirði. Spurningarnar fjölluðu bæði um líkamlega og andlega líðan eftir eldgosið, auk spurninga um félagslega þætti.
Þremur árum síðar var könnuð líðan sama hóps. Afar sjaldgæft er að tækifæri gefist til að bera saman líðan fólks stuttu eftir náttúruhamfarir og nokkrum árum síðar.
Rannssökuð hafa verið áhrif margra þátta og mismundandi hópa, þ.m.t. barna.
Einnig var safnað vefjasýnum sláturdýra til meinafræðirannsókna.
Stýrihópur:
Heilbrigðisráðherra skipaði í júlí 2010 stýrihóp til að standa að rannsóknum á áhrifum eldgossins á heilsu:
- Guðrún Pétursdóttir frmkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða, formaður
- Gunnlaug Einarsdóttir sviðsstjóri á Umhverfisstofnun
- Halldór Runólfsson yfirdýralæknir
- Haraldur Briem sóttvarnarlæknir
- Sigurður Guðmundsson forseti Heilbrigðisvísindasviðs H.Í.
- Þórarinn Gíslason prófessor og yfirlæknir á Lungnadeild LSH
- Þórir Björn Kolbeinsson yfirlæknir á Heilsugæslustöð Suðurlands
Í verkefnisstjórn þess þáttar sem laut að áhrifum á heilsu manna voru til viðbótar Arna Hauksdóttir og Unnur Anna Valdimarsdóttir frá Rannsóknarmiðstöð í lýðheilsufræðum, en verkefnisstjóri gagnaöflunar var Hildur Friðriksdóttir.
Hanne Krage Carlen og Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir doktorsnemar unnu að úrvinnslu gagna í fyrsta verkþætti en meistaranemar í síðari verkþáttum.
Ólöf Guðrún Sigurðardóttir dýralæknir á Keldum stýrir meinafræðirannsókn á áhrifum gossins á dýr.
Verkefnisstjóri: Guðrún Pétursdóttir
Meistaraverkefni
Þrír meistaranemar í lýðheilsufræðum hafa unnið meistaraverkefni sín í tenglsum við þessa rannsókn:
- Ólöf Sunna Gissurardóttir: Andleg líðan í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010. Lýðgrunduð rannsókn
- Heiðrún Hlöðversdóttir: Heilsufarslegar afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli: Framsýn ferilrannsókn 2010 og 2013
- Harpa Þorsteinsdóttir: Health effects of the Eyjafjallajökull volcanic eruption among children: A prospective cohort study in 2010 and 2013
Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í samfélaginu og sinna stórum hluta opinberrar þjónustu við íbúana. Eftir hamfarir eins og jarðskjálfta eða snjóflóð bregst kerfi almannavarna við og fjöldi ólíkra viðbragðsaðila starfar á áfallasvæðinu. Leit, björgun og aðhlynning slasaðra hefur forgang.Meðan hjálparlið er að störfum á slysavettvangi sinnir sveitarfélagið margs konar þjónustu við þolendur, s.s. hreinsun og viðgerðum, húsnæðisaðstoð og annarri félagslegri aðstoð og ráðgjöf, allt eftir eðli áfallsins.
Rannsóknin beindist að stjórnsýslu sveitarfélaga og viðbrögðum þeirra vegna náttúruhamfara og annarra samfélagsáfalla. Gerð var almenn lagagreining á hlutverki ríkis, sveitarfélaga og annarra viðbragðsaðila sem gegna lykilhlutverki í skipulagi almannavarna. Jafnframt voru verkferlar og viðbragðsáætlanir athugaðar og fléttaðar saman við hið raunverulega hlutverk sem greining hefur sýnt að sveitarfélög gegni eftir hamfarir. Höfundur kom að aðstoð við sveitarfélög á Suðurlandi eftir jarðskjálftana 29. maí 2008 og nýttist sú reynsla í verkefninu. Aðferðum verkefnisstjórnar og gæðastjórnunar var beitt við alla þætti verkefnisins og notaði höfundur m.a. hugkort1 við greiningu og framsetningu niðurstaðna.
Lagagreiningin var jafnframt hluti af rannsóknarverkefninu Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN). Lokaafurð þess verkefnis fól í sér leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara, sem þegar hafa verið nýttar af sveitarfélögum á Suðurlandi.
Niðurstaðan sýnir að starfsemi sveitarfélaga er í raun ekki hluti af skipulagi almannavarna, nema hvað almannavarnanefndir varðar. Almannavarnanefndir eru skipaðar af sveitarstjórnum og eru lögum samkvæmt ábyrgar fyrir gerð viðbragðsáætlana, sem fyrst og fremst lúta að stjórnun og samhæfingu við leit og björgun á fólki og allra fyrstu viðbrögðum. Þær áætlanir ná ekki til starfsemi sveitarfélaga og nærþjónustu sem þau veita þolendum eftir náttúruhamfarir og önnur áföll.
Meistaraverkefnið hefur hlotið góðar undirtektir sveitarstjórna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og þátttökusveitarfélaga. Það gefur vísbendingu um að fullur áhugi sé meðal aðila um að bæta skipulag almannavarna og tryggja virka þátttöku sveitarstjórna í stefnumótun og starfi almannavarna.
Verkefnið var unnið að hluta í tengslum við verkefnið Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN). Upphaflega átti það eingöngu að vera hluti af LVN verkefninu, en breyttist í sjálfstæða rannsókn er fjallar um stjórnsýslu sveitarfélaga og hlutverk þeirra í skipulagi almannavarna.
Ritgerðin tók miklum breytingum á þeim tveimur og hálfu ári sem hún var í vinnslu. Hluti hennar var birtur í bók sem gefin var út af LVN rannsóknarhópnum í september 2008.
Á vinnslutíma fór fram heildarendurskoðun á lögum um almannavarnir nr. 82/2008. Í tengslum við þá endurskoðun vann LVN rannsóknarhópurinn álit varðandi langtímaviðbrögð eftir náttúruhamfarir þar sem m.a. var lagður fram hluti þeirra greiningarupplýsinga sem hér koma fram.
Í maí 2008 urðu jarðskjálftar á Suðurlandi sem breyttu áherslum og veittu höfundi mikilvægar viðbótarupplýsingar inn í ritgerðina. Höfundur vann greiningu fyrir dómsmálaráðuneyti um þjónustumiðstöðvar á áfallasvæði í tengslum við setningu reglugerðar þar að lútandi.
Herdís Sigurjónsdóttir vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í Umhverfis- og auðlindafræðum, sem hún lauk árið 2009.
Ritgerð Herdísar má finna á Skemmunni.
Leiðbeinendur:
- Gunnar Stefánsson
- Páll Jensson
- Guðrún Pétursdóttir
Verkefnið Byggjum öruggara samfélag er tvíþætt og lýtur annars vegar að viðbragðsáætlunargerð sveitarfélaga og hins vegar að því að virkja almenning sjálfan í því að auka öryggi. Báðir hlutar lúta að því að varna og draga úr tjóni af völdum náttúruhamfara.
Þátttakendur í verkefninu eru:
- Samband íslenskra sveitarfélaga
- Sveitarfélagið Ölfus
- Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
- Rauði kross Íslands
- Slysavarnafélagið Landsbjörg
- VSÓ Ráðgjöf
Auk þess var leitað eftir samstarfi við m.a. almannavarnanefndir, sveitarfélög og tryggingarfélög.
Viðlagatrygging Íslands styrkti verkefnið
Verkefnisstjóri: Herdís Sigurjónsdóttir MSc.
Hinar afdrifaríku náttúruhamfarir sem riðið hafa yfir heiminn á undanförnum árum hafa beint sjónum manna að mikilvægi viðbragða almannavarna við slíkum atburðum og þess að boðleiðir og ábyrgðir séu skýrar. Það á ekki aðeins við um fyrstu viðbrögð heldur ekki síður til lengri tíma litið.
Skipta má viðbrögðum í kjölfar áfalla í þrjá meginkafla:
- björgun mannslífa
- neyðaraðstoð
- uppbyggingu.
Hingað til hafa almannavarnir hér á landi lagt megináherslu á fyrsta kaflann, björgun mannslífa, og á að gera viðbragðsaðilum og ábyrgðarmönnum kleift að vinna hratt og örugglega.
Þetta verkefni miðaði að því að skilgreina hvernig best verður staðið að síðari tveimur köflunum, þ.e. neyðaraðstoð og uppbyggingu. Greint var hvað skiptir máli varðandi almannavarnir og aðstoð til fólks þegar frá líður atburðinum. Hvaða aðstoð þarf að veita, hversu vítt þarf hún að ná og hversu lengi á að veita hana? Hvernig á að skipulegga þessa aðstoð, hverjir taka ákvarðanir, hvernig á að framkvæma þær og fylgja þeim eftir, og hverjir eiga að bera kostnaðinn?
Þessum spurningum verður aðeins svarað með rannsóknum. Hér lagði Háskóli Íslands til sérþekkingu ásamt sumum helstu sérfræðinga landsins í almannavörnum og stjórn áfallahjálpar. Verkefnið var unnið í samvinnu við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Rauða krossinn, Viðlagatryggingu og fulltrúa annarra stofnana og samtaka sem gegna lykilhlutverki við hina ýmsu þætti almannavarna. Ísafjarðarbær tók fullan þátt í verkefninu frá upphafi sem tilraunasveitarfélag.
Í kjölfar rannsókna og greiningar voru settar fram viðbragðsáætlanir og leiðbeiningar, bæði almennar fyrir öll sveitarfélög og sértækar fyrir ákveðin sveitarfélög. Svo vildi til, að um það leyti sem verkefninu var að ljúka, vorið 2008, reið Suðurlandsskjálftinn yfir. Almannavarnarráð fékk þegar leiðbeiningar LVN til afnota. Í kjölfarið voru unnar sértækar leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin Hveragerði, Árborg og Ölfus.
LVN fléttast inn í önnur verkefni á vegum SSf á sviði áfallaþols og viðnámsþrótts gagnvart umhverfisbreytingum, meðal annars Evrópuverkefnin CoastAdapt,Enhance og NORDRESS.
Rit
- Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Sólveig Þorvaldsdóttir, Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, Herdís Sigurjónsdóttir, Geir Oddsson og Guðrún Pétursdóttir.