Loftgæði og heilsa

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um samband loftgæða og heilsu. Það á bæði við um áhrif náttúruhamfara, eins og öskufall af völdum eldgosa, og áhrif mengunar eins og svifryks, ekki síst í þéttbýli þar sem bílaumferð er þung.

Almenningur er að vakna til vitundar um áhrif loftgæða á heilsu og er viðbúið að þrýstingur aukist á aðgerðir til að draga úr loftmengun og þeim skaða sem hún getur valdið. Til þess að slíkar aðgerðir verði markvissar og hafi tilætluð áhrif, verða þær að byggjast á skilningi á sambandi loftgæða og heilsu.

Stofnun Sæmundar fróða tekur þátt í norræna öndvegissetrinu NordicWelfair, sem fjallar um tengsl loftmenguna, heilsu og velferðarþjónustu á Norðurlöndum. 

Prófessor Þröstur Þorsteinsson stýrir verkþætti Sæmundar fróða, en með honum vinna að því þær Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir doktorsnemi og  Dr. Anna Karlsdóttir sérfræðingur hjá NordRegio.

Sameiginlegur stýrihópur heilbrigðisráðuneytis og umhverfisráðuneytis til samstarfs um loftgæði og lýðheilsu var skipaður 26. ágúst 2010. Hlutverk hans var:

  • söfnun upplýsinga um loftgæði ásamt mati á áhrifum loftmengunar á heilsu fólks á Íslandi, sérstaklega barna og ungmenna.
  • Mat á merkivísum sem gefa slíkar upplýsingar og þar með möguleika á að geta vaktað hvort tveggja á sýnilegan hátt.
  • Að setja fram tímasetta áætlun með mælanlegum skrefum til þess að bæta loftgæði og draga úr áhrifum mengunar á börn.
  • Að huga að fræðsluefni fyrir markhópa - sér í lagi fyrir ungbarnavernd, skólakerfið  og foreldrafræðslu.

Í stýrihópnum voru:

  • Stefán Einarsson, sérfræðingur, fulltrúi umhverfisráðuneytisins, formaður
  • Valgerður Gunnarsdóttir, sérfræðingur, fulltrúi heilbrigðisráðuneytis, varaformaður
  • Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir, fulltrúi Landlæknisembættisins
  • Hafsteinn Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna, fulltrúi Lýðheilsustöðvar
  • Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, fulltrúi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar
  • Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða
  • Sigurður Þór Sigurðarson, yfirlæknir, fulltrúi SÍBS
  • Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur, fulltrúi Umhverfisstofnunar

Niðurstöður hópsins voru gefnar út vorið 2014 í ritinu Hreint loft, betri heilsa.

Rannsóknir sýna að í vestrænum heimi verja menn sífellt meiri tíma innandyra eða sem nemur um 80-90% sólarhringsins. Því er ástæða til að huga að loftgæðum og mengunarvöldum innandyra. Enn skortir mælingar á loftgæðum innandyra á Íslandi og þekkingu á sambandi loftgæða utandyra og innan.

Í þessu verkefni voru könnuð loftgæði í grunnskólum í Reykjavík og hugað að sambandi loftmengunar innan- og utandyra. Greindar voru orskakir mismunandi loftgæða og niðurstöðurnar nýttar til ráðgjafar um hvernig bæta má innivist í reykvískum grunnskólum.

Vanda Helsing vann þessa rannsókn sem lokaverkefni í  Umhverfis- og auðlindafræði og lauk prófi 2009.  

Ritgerð hennar um mengun innandyra má nálgast hér.

Samstarfsaðilar:

  • Háskóli Íslands
  • Umhverfissvið Reykjavíkurborgar

Fjármögnun:

  • Háskóli Íslands
  • Nýsköpunarsjóður
  • Umhverfissvið Reykjavíkurborgar
  • Orkuveita Reykjavíkur 

Verkhópur:

  • Guðrún Pétursdóttir
  • Rósa Magnúsdóttir, Umhverfissviði Reykjavíkurborgar
  • Vanda Helsing, meistaranemi í Umhverfis- og auðlindafræðum HÍ.  

Verkefnisstjóri:

  • Brynhildur Davíðsdóttir, forstöðumaður námsbrautar í Umhverfis- og auðlindafræðum HÍ.  

Sýnt hefur verið fram á að breytingar í styrkleika loftmengunarefna hafa áhrif á heilsufar hjartasjúklinga. Loftgæði á Íslandi eru almennt talin góð en við ákveðnar aðstæður getur styrkleiki loftmengunar farið yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka hvort samband er milli loftmengunarefnanna NO2, O3, PM10 og H2S og afgreiðslu á hjartalyfjum sem gefin eru við hjartaöng í Reykjavík.

Gögn um daglegan fjölda afgreiddra lyfja í lyfjaflokki C01DA var fenginn úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins. Gögn um magn níturdíoxíðs (NO2), ósóns (O3), svifryks (PM10) og brennisteinsvetnis (H2S) voru fengin frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun. Tilfella-víxlunar rannsóknarsnið (e. case- crossover design) var notað og rannsóknartímabilið var frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009.

Jákvætt samband reyndist vera milli loftmengunar og fjölda afgreiðslna á lyfjum í ATC flokki C01DA. Fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun á styrkleika NO2 í lofti jókst afgreiðsla lyfja í undirflokknum C01DA02 (glýserýlnitrat; nitróglýserín) um 11,6% sama daginn. Samsvarandi varð 9% aukning á afgreiddum lyfjum fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun á styrkleika O3. Það var 7,1% og 7,2% aukning í afgreiðslum lyfja fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun í styrkleika NO2 og O3 miðað við mengun daginn fyrir afgreiðslu.

Ályktun: Þar sem þetta er fyrsta rannsóknin, hér á landi og erlendis, sem metur samband milli loftmengunar og fjölda afgreiðslna á hjartalyfjum verður að álykta með varúð. Engu að síður benda niðurstöðurnar til að aukning í loftmengun auki fjölda afgreiðslna á lyfjum við hjartaöng og að þetta gæti verið unnt að nota sem ábendingu um heilsufarsáhrif af loftmengun.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í Umhverfis- og auðlindafræðum og lauk námi haustið 2010.

Rigerð hennar má nálgast á Skemmunni.

Leiðbeinandi:  Vilhjálmur Rafnsson

Loftgæði í og umhverfis Reykjavík eru yfirleitt góð en brennisteinsmengun (H2S) frá jarðhitavirkjunum og svifryk (PM) eru áhyggjuefni. Skammtímaáhrif brennisteinsvetni á heilsu eru nær óþekkt en sýnt hefur verið fram á að svifryk veldur versnun á einkennum öndunarfærasjúkdóma. Þetta er fyrsta rannsóknin á sambandi loftmengunar og öndunarfæraheilsu í Reykjavík og nágrenni.

Úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins var fundið hve margir, 18 ára og eldri, leystu dag hvern út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (ATC-lyfjaflokkur R03A). Umhverfissvið Reykjavíkurborgar lagði tili gögn um magn svifryks (PM10), níturoxíðs (NO2), ósons (O3), brennisteinsvetnis (H2S) og veðurskilyrði. Rannsóknartímabilið var frá 22. febrúar 2006 til 30. september 2008.

Poisson aðhvarfsgreining var notuð til að greina samband daglegs mengunarmagns og fjölda einstaklinga sem leystu út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (R03) sem og fjölda þeirra sem leystu út adrenvirk innúðunarlyf gegn teppusjúkdómum í öndunarvegi (R03A). Meðaltal sólarhringsmælinga og meðaltal hæsta klukktímagildis var reiknað fyrir þriggja daga tímabil og notað sem tæri, með 0-14 daga seinkun (lag).

Leiðrétt var fyrir áhrifum veðurs, tímaþætti, flensutímabilum og vikudögum. Jákvætt samband reyndist á milli loftmengunar og daglegs fjölda einstaklinga sem leysti út lyf með þriggja daga seinkun. Sambandið var tölfræðilega marktækt fyrir lag 3-5 fyrir þriggja daga meðaltal H2S og PM10.

Áhrifin voru svipuð fyrir þriggja daga meðaltal hæsta klukkutímagildis en þá reyndust NO2 and O3 einnig hafa marktæk aukin áhrif á lyfjanotkun. Aukin loftmengun á höfuðborgarsvæði Íslands virðist hafa væg en tölfræðilega marktæk áhrif á lyfjanotkun borgarbúa við teppusjúkdómi í öndunarvegi, ekki síst þegar litið er til hæstu mengunargilda. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að H2S auki einkenni öndunarfærasjúkdóma jafnvel þegar aukin mengun varir aðeins í skamman tíma.

Hanne Krage Carlsen vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í lýðheilsuvísindum og lauk námi í ársbyrjun 2010.

Ritgerð hennar má nálgast á Skemmunni.

Leiðbeinendur:

  • Þórarinn Gíslason Ph.D., M.D.
  • Birgir Hrafnkelsson Ph.D.
  • Helga Zoëga M.A.