Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor, fulltrúi Menntavísindasviðs í stjórn Stofnunar Sæmundar fróða

Eitt af því sem mér er minnisstæðast af öllu barnaskólanámsefni mínu eru sögurnar af Sæmundi fróða þegar hann sneri á kölska: boraði holu sem hann plataði kölska inn í, lét hann liggja á altarinu hjá sér í líknarbelg og svo framvegis. Minnisstæðasta sagan er eflaust sú þegar hann lét hann synda með sig til Íslands úr náminu við Svartaskóla.

Greinilegt er að fleiri en ég halda upp á þessar sögur enda komu upp 77 færslur með einni google-leit að Sæmundi fróða. Ein af færslunum er auðvitað söngtexti Megasar sem meðal annars söng:

„En djöfullinn hann er í dagsbrún nú,
það dug' ekki prettirnir framar á hann;
hann veit glöggt hvað verðskuldar hann,
að fá fyrir verk eins og þau sem kauplaust hann vann –
hjá Sæma, síra Sæma, vann hann kauplaust hjá Sæmanum fróða“. –

Það var einmitt í þessum brag sem Megas söng um stórsóknarfórn verkalýðsforingjans, en kölski átti að gamna sér við að geta upp á þeirri næstu. Að geta snúið á djöfulinn er hvorki meira né minna en snilld – og fyrir það dáði ég Sæmund.

Sæmundur fróði er mikilvæg táknmynd, ekki bara fyrir snilldina eina og ekki bara hér á styttunni – heldur um svo margt sem kemur við námi og menningu. Ég ætla að rifja upp tvö af þessum táknum.

Fyrri táknmyndin tengist námi í útlöndum. Sæmundur var um árabil málgagn SÍNE, Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Sæmundur kom fyrst út árið 1982 og hef ég hér í höndum tíu ára afmælisblað sem var einnig 30 ára afmælisrit SÍNE, en þau samtök voru stofnuð 1961. Það var auðvitað vel við hæfi að kalla blaðið eftir þessum þekktasta íslenska námsmanni erlendis, Sæmundi. Ekki vorum við sem ritstýrðum Sæmundi veturinn 1991–1992 þó jafnklók og nafni hans í viðskiptum sínum við kölska því að við skíttöpuðum baráttunni gegn nýjum lögum um námslán þegar vextir voru settir á lánin og endurgreiðsluhlutfall stórhækkað. Miklu yngri er svo annar Sæmundur, blað Stúdentafélags Kennó, félags nemenda í Kennaradeild Háskóla Íslands, nú þriðji árgangur.

Hin táknmyndin, sem ég ætla að tala um, er rannsóknarstofa um sjálfbærni og þverfræðileg viðfangsefni, Stofnun Sæmundar fróða. Öll sviðin fimm eiga aðild að stjórn hennar og hún er því mikilvægur samstarfsvettvangur innan Háskólans og einnig fyrir hönd hans við aðra hér innan lands og í alþjóðlegu starfi. Ég hef raunar ekki hugmynd um hvers vegna þetta nafn varð fyrir valinu en táknmyndin um að þekking og fróðleikur Sæmundar væru ekki einleikin hlýtur að eiga þátt í valinu. Enda eru mörg þau viðfangsefni sem varða sjálfbæra þróun þess eðlis að það þarf ráðsnilld á borð við ráðsnilld Sæmundar til að leysa þau.

Við skulum fagna því að eiga þessa táknmynd visku og gæða hér á háskólalóðinni. Jafnvel þótt ég trúi nú alls ekki á tilvist kölska, enda er vísast að Sæmundur hafi í raun og veru gengið frá honum. Vésteinn Ólason segir í ávarpi á Sæmundarstund að í viðureignunum við kölska hefði Sæmundur sýnt að með þekkingu væri hægt að sigrast á hinu illa.

Ég óska nemendafélögum Háskólans til hamingju með þá nýtilkomnu hefð að afhenda hvert öðru viðarskjöldinn þar sem félögin geta minnst afreka við nám og rannsóknir. Hún er til marks um þá þverfræðilegu samstöðu og samlegð sem Háskóli Íslands býr yfir.

Share