Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands er ein af helstu skipuleggjendum nýs og áhugaverðs fræðslu-, leiðtoga- og útivistarnámskeiðs um loftslagsmál fyrir fólk á aldrinum 18-25 ára.
Á námskeiðinu er blandað saman krefjandi leiðangri um suðursvæði Vatnajökuls, fræðslu um loftslagsmál og leiðtogaþjálfun. Lögð verður áhersla á gildi samvinnu og sterkrar liðsheildar. Þátttakendur á námskeiðinu verða hvattir til að láta til sín taka í umræðunni um loftslagsmál, finna leiðir til að hafa áhrif og leiða vitundarvakningu um aðgerðir í loftslagsmálum. Búið er að opna fyrir umsóknir til þátttöku í námskeiðinu og er hægt að sækja um á vef námskeiðsins.
Námskeiðið er hluti af hreyfiaflinu Loftslagsleiðtoginn sem hefur það að markmiði að fræða og valdefla einstaklinga í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Loftslagsleiðtoginn er hugarfóstur Hafdísar Hönnu Ægisdóttur, forstöðumanns Stofnunar Sæmundar fróða, Vilborgu Örnu Gissurardóttur fjallakonu og Salome Hallfreðsdóttur umhverfisfræðings og byggist m.a. á þekkingu þeirra og ástríðu fyrir náttúrunni, útivist, fræðslu, miðlun og leiðtogaþjálfun.