Opnunarerindi um smitáhrif á ungmennaráðstefnu í Helsinki
Þann 11. mars síðastliðinn hélt Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, opnunarerindi á ráðstefnu norræna ungmennaverkefnisins ‘Hæft ungt fólk hvetur til heildrænnar nálgunar á sjálfbærri þróun og grænum umskiptum’ sem haldin var í Helsinki. Verkefnið er unnið í samvinnu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð og miðar að því að fræða ungmenni um sjálfbæra þróun og mannréttindi.
Í opnunarerindi sínu fjallaði Hafdís Hanna um alþjóðleg smitáhrif (e. spillover effects), en með smitáhrifum er átt við hvernig aðgerðir innan hvers ríkis hafa neikvæð eða jákvæð áhrif á getu annarra ríkja til að ná heimsmarkmiðunum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í erindinu fjallaði Hafdís Hanna um smitáhrif, ekki í síst í samhengi sjálfbærrar neyslu og framleiðslu enda eru helstu neikvæðu smitáhrif Norðurlandanna tengd mikilli neyslu og innflutningi. Eins fjallaði hún um mælingar á smitáhrifum í norrænum samanburði og hvað hægt sé að gera til þess að minnka þau. Þessa má geta að Sjálfbærnistofnun HÍ framkvæmdi úttekt að beiðni stjórnvalda í fyrra á smitáhrifum Íslands og birtust niðurstöður hennar í landrýniskýrslu Íslands.