Hafdís Hanna Ægisdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og tekur við af Guðrúnu Pétursdóttur sem hefur veitt stofnuninni forstöðu frá upphafi. Háskólaráð samþykkti á fundi nýverið að stofnunin myndi flytjast yfir á Félagsvísindasvið. „Við fögnum þessari viðbót við það fjölbreytta starf sem er nú þegar á fræðasviðinu,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs.
Hafdís Hanna er með BS og MS próf í líffræði frá Háskóla Íslands og lauk doktorsprófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðin 12 ár hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og sem ráðgjafi fyrir utanríkisráðuneytið í umhverfismálum og þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.
Hafdís Hanna hlakkar til að taka við starfi forstöðumanns stofnunarinnar. Mikil tækifæri eru í að efla enn frekar rannsóknir, kennslu og samstarf ólíkra stofnana og einstaklinga á sviði sjálfbærni. „Það er mjög mikilvægt að við vinnum saman þvert á stofnanir og fagsvið til takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag: loftlagsbreytingar, tap á líffræðilegri fjölbreytni og auknum ójöfnuði svo fátt eitt sé nefnt. Ég hlakka til að takast á við starfið,“ segir Hafdís Hanna að lokum.