Kortlagning starfsemi HÍ og samstarfs um land allt er undirstaða áframhaldandi þróunar
Starfsemi Háskóla Íslands í samfélögum utan höfuðborgarinnar er kortlagt í nýrri skýrslu sem Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands hefur unnið og birt á vefsíðu Háskólans. Kortlagning gefur skólanum færi á að þróa starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins með markvissari hætti. Af skýrslunni að dæma er starfsemin sem og samstarf viðamikil víðs vegar um landið og kortlagningin undirstaða áframhaldandi þróunar í þágu landsins í heild.
„Með skýrslunni er dregin upp mynd af því hvernig Háskóli Íslands rækir hlutverk sitt á landsvísu – með rannsóknum, menntun og samstarfi,“ segir Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, en hún leiddi vinnuna við kortlagningu á starfi HÍ um landið allt.
Skýrslan heitir Háskóli Íslands um land allt, kortlagning á starfsemi HÍ utan höfuðborgarsvæðisins en hún er aðgengileg á heimasíðu skólans. Í skýrslunni er að finna dæmi yfir fjölbreytta starfsemi HÍ víða um landið sem spannar allt frá rannsóknum og kennslu yfir í samfélagslegt samstarf, bæði í nafni HÍ og í gegnum samstarf við stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök. Þrátt fyrir að skýrslan sé ekki tæmandi yfirlit, lýsir hún fjölbreyttum dæmum sem sýna breidd, umfang og mikilvægi þeirrar starfsemi og samstarfs sem fer fram víðs vegar um landið.
„Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á að þjóna landinu öllu og vera þannig raunverulegur háskóli allra landsmanna. Þessi ásetningur kemur skýrt fram í stefnunni okkar. Þar er lögð rík áhersla á öflugt samstarf við atvinnu- og þjóðlíf og að gróskumiklar grunnrannsóknir og hagnýting þeirra séu mikilvægt framlag til nýsköpunar og samfélagslegrar þróunar. Víða má sjá skýr merki um þetta víðs vegar um landið,“ segir Jón Atli Benediktsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands í inngangi að skýrslunni.
Núverandi stefna HÍ endurspeglar hlutverk og framtíðarsýn skólans og markar forgangsröðun helstu verkefna. Til að innleiða stefnuna á markvissan hátt skilgreindi skólinn tíu verkefnastofna þar sem umfangsmestu þróunarverkefnin eru sett fram og unnin. Einn þeirra ber heitið Samstarf við samfélag og margvíslegar leiðir til miðlunar. Í honum er meðal annars lögð áhersla á að kortleggja og efla samstarf Háskólans við samfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Skýrsla Sjálfbærnistofnunnar er þannig mikilvæg undirstaða í áframhaldandi þróun samstarfs HÍ um landið allt. Þegar næstu skref þessa verkefnis verða tekin er mikilvægt að það sé gert í áframhaldandi samtali og samráði við þau samfélög sem starfi mun beinast að.
Fjarnám og stofnun háskólasamstæðu
Þegar horft er til tengsla við landsbyggðina kemur fjarnám fljótlega upp í hugann en Háskóli Íslands hefur eflt þann þátt gríðarlega á undanförnum misserum í anda stefnunnar. Með fjarnámi er fólki gert kleift að stunda nám í HÍ án tillits til staðsetningar. Nú er svo komið að enginn háskóli á landsvísu býður fleiri heilar námsleiðir sem eru alfarið í fjarnámi, en þær eru nú orðnar á annað hundrað talsins. Skýrslan tekur sérstaklega á þessu og bendir á aukin sóknarfæri hvað fjarnám varðar.
Annað sem skiptir veigamiklu máli er stofnun háskólasamstæðu með aðild Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands en samstæðan tekur formlega til starfa þann 1. janúar á næsta ári. Samstæðunni er m.a. ætlað að bæta samkeppnishæfni háskólanna tveggja ásamt því að auka gæði náms og framboð staðnáms utan höfuðborgarsvæðisins, rannsókna, stoðþjónustu og auka tengsl við atvinnulíf og samfélög um land allt.
Með því að flytja Stofnun rannsóknasetranna að Hólum í Hjaltadal er ætlunin að efla rannsóknasetrin ásamt starfsemi kampusins á Hólum.
Öflug rannsóknasetur um land allt
Hafdís Hanna segir að þegar skýrslan sé skoðuð megi draga þær ályktanir að starfsemi skólans á landsvísu gagnist öllum, bæði samfélögum um landið allt og fræðasamfélaginu. Þetta blasi t.d. við þegar kemur að hagnýtingu rannsókna fyrir atvinnustarfsemi auk þess sem svæðisbundin þekking og samstarf séu mikilvægir þættir fyrir fræðasamfélagið allt.
„Hér skipta rannsóknasetur HÍ lykilmáli,“ segir Hafdís Hanna en þau eru tólf talsins á þrettán stöðum víða um land. „Þau eru mikilvæg fyrir fræðasamfélagið en ekki síður fyrir íslenskt samfélag um land allt. Þekking innan þeirra er bæði fjölbreytt og oft á tíðum mjög sértæk fyrir sitt nærsamfélag og atvinnulíf á hverjum stað. Rannsóknasetrin hafa síðustu árin sannað gildi sitt, bæði með rannsóknum og nánu samstarfi við svæðisbundna aðila.“
Veigamikið hlutverk í að efla þekkingu
Í skýrslunni kemur fram að HÍ gegni mikilvægu hlutverki við að efla þekkingu í byggðum landsins og því mikilvægt að styrkja bæði svæðisbundin verkefni en ekki síður að efla fast rannsókna- og fræðslustarf um land allt. Hluti af fræðslustarfinu hefur t.d. farið fram með Háskólalest HÍ sem hefur miðlað þekkingu til bæði nemenda og kennara á grunnskólastigi í tugum bæjarfélaga í meira en heilan áratug.
Af lestri skýrslunnar má ráða að Háskólinn hafi fjölmörg tækifæri til að efla frekar samstarf sitt um landið vítt og breitt, ekki síst við að samnýta þekkingu og efla rannsóknasetur skólans. Í síðustu viku var tilkynnt um opnun á nýjasta rannsóknasetri HÍ sem verður helgað rannsóknum í menntasvísindum og staðsett á Eskifirði.
Stór liður í eflingu rannsóknasetranna er reyndar tiltekinn í skýrslunni og fólginn í flutningi á Stofnun rannsóknasetranna að Hólum í Hjaltadal samhliða stofnun háskólasamstæðu Háskóla Íslands með aðild Háskólans á Hólum.
Eins og áður sagði verður skýrslan hagnýtt til að þróa áfram samstarf Háskóla Íslands um landið allt.