Uta Reichart, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem standa að verkefninu og sýningunni Disaster Studios sem stendur yfir dagana 19.-23. maí og er hluti af Hönnunarmars. Á sýningunni, sem fram fer í gróðurhúsinu við Norræna húsið, er kynntur til leiks orkusparneytinn vefþjónn og vefsíða sem hýst er hérlendis til að gæta að kolefnisspori verkefnisins.
Verkefnið Disaster Studios snýst um að kanna samspil hönnunar og rannsókna í áhættu- og almannavörnum til að auka þrautseigju fólks á tímum hamfara. Uta hefur fengist við bæði rannsóknir tengdar áhættustjórnun á sviði hamfara og hönnun í störfum sínum hjá Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands en bæði þessi svið hafa það að markmiðið að skilja og bæta viðbragðsferli.
Að hanna þrautseigju
Disaster Studios er runnið undan rifjum Utu og hönnuðarins Johönnu Seelemann. Í verkefninu eru kannaðar leiðir til að efla þrautseigju og viðbrögð fólks við hamförum með því að taka saman og þróa aðferðir sem miða að því. Markmiðið er að gefa út leiðarvísi sem grundvöll að þverfaglegu samstarfi.
„Í dag er kolefniskostnaðurinn við innviði internetsins sambærilegur heildarkolefnisspori flugumferðar á heimsvísu, en þar sem losun kolefnis stuðlar að loftslagsbreytingum og eykur þar með hamfaraáhættu, þá er hrein orka ákveðin viðspyrna gegn hamförum. Verkefnið Disaster Studios leggur áherslu á tenginguna á milli upplýsinga og áhrifa þeirra á vistkerfið og því byggir vefsíða verkefnisins á bæði orkusparnaði og gagnagegnsæi. Vefþjónninn er hýstur sjálfstætt á Íslandi og knúinn af endurnýjanlegri orku,“ segir á vef Hönnunarmars um verkefnið og sýninguna.
Sem fyrr segir er sýningin opin til sunnudagsins 23. maí.