Orðin sjálfbærni og sjálfbær þróun eru mikið í umræðinni þessi misserin. Fyrirtæki gefa út sjálfbærniskýrslur, menntun til sjálfbærni er mikilvæg í skólastarfi á öllum skólastigum og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru vegvísir þjóða heims til ársins 2030.

En hvað er sjálfbærni? Hver er sagan að baki þessu hugtaki og af hverju er sjálfbærni mikilvæg, ekki síst núna árið 2022?

Hugtakið sjálfbærni fest í sessi í Brundtland-skýrslunni

Byrjum á sögunni. Hugtakið sjálfbær þróun kom fyrst fram í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar en var síðar rækilega kynnt til sögunnar í tímamótaskýrslu Sameinuðu þjóðanna 1987. Skýrslan heitir Sameiginleg framtíð okkar, á frummálinu, Our Common Future, en er oftast kennd við formann nefndarinnar sem vann hana, Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs og er kölluð einfaldlega Brundtland-skýrslan. Í henni er sjálfbær þróun skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum“. Áhersla var lögð á að sjónarmið samfélags og náttúru stæðu jafnfætis þeim efnahagslegu og er oft talað um þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar, samfélagsmál, efnahag og náttúru, sem allar tengjast innbyrðis.

Áður en hugtakið um sjálfbæra þróun kom til sögunnar var gjarnan litið svo á, bæði meðal stjórnvalda og fyrirtækja, að hinn efnahagslegi grunnur væri það sem mestu máli skipti og ef hagsmunir náttúru og samfélags rækjust á við hagræn sjónarmið yrðu hagsmunir náttúru og samfélags að víkja.

Sjálfbærni snýst ekki bara um umhverfismál

En snýst sjálfbærni bara um umhverfismál? Nei, svo sannarlega ekki. Hinar klassísku stoðir sjálfbærni eru, eins og áður sagði, samfélagsmál, náttúra og efnahagur. Á fyrstu árum umræðunnar um sjálfbæra þróun var lögð áhersla á að stoðirnar þrjár væru allar jafn mikilvægar. Í fyllingu tímans og með aukinni þekkingu þróaðist sjálfbærnihugtakið og nú er ljóst að efnahagslegur vöxtur getur ekki farið út fyrir þau endanlegu mörk sem vistkerfi Jarðar setja okkur. Auðlindir Jarðar eru takmarkaðar og með því að ofnýta þær röskum við viðkvæmu jafnvægi vistkerfa og loftslags eins og dæmin hafa sannað og við fáum nú daglega fréttir af víða úr heiminum.

Náttúra og umhverfi eru vissulega undirstaða þess að sjálfbærni verði náð enda setur náttúran umsvifum okkar mannfólksins mjög ákveðnar skorður, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Sjálfbærni er þrátt fyrir það mun víðfeðmara hugtak en svo að það snúist eingöngu um náttúru og umhverfi. Hugtakið snertir heilsu og vellíðan, félagslegt réttlæti, menningarmál og efnahagslíf. Sjálfbær þróun leggur áherslu á mikilvægi heildarsýnar og langtímahugsunar, ekki skyndiákvarðana og gróða.

Markmið sjálfbærrar þróunar er að koma á sjálfbærni í samfélaginu í heild og á Jörðinni. Við heyrum oft talað um að eitthvað sé sjálfbært; til dæmis sjálfbær nýting náttúruauðlinda, sjálfbær framleiðsla, sjálfbær neysla og svo framvegis. Þegar orðið sjálfbærni er notað í þessum tilfellum er átt við að þessi starfsemi styðji við sjálfbæra þróun, þ.e.a.s. að framleiðslan, neyslan og nýtingin í þessu tilfelli taki ekki meira frá náttúrunni en Jörðin nær að endurnýja. Með öðrum orðum að ekki sé gengið á höfuðstólinn.

Við getum tekið ferðaþjónustufyrirtæki við ónefnda náttúruperlu á Íslandi sem dæmi. Til að styðja við sjálfbæra ferðamennsku þarf fyrirtækið að huga að náttúru og umhverfi, félagslegum þáttum og góðum stjórnarháttum. Fyrirtækið þarf að starfa innan þess ramma sem náttúran og samfélagið setur því og í stað þess að hámarka gróðann sem hægt er að ná þarf fyrirtækið að taka tillit til náttúru og fólks, lágmarka mengun og kolefnisspor. Fyrirtækið ætti að vinna að því að hámarka ánægju starfsfólks og viðskiptavina og styðja við vernd og endurheimt náttúru á svæðinu. Góðir starfshættir skapa einnig góðan orðstír sem laðar að ferðamenn og þannig hagnast allir að lokum, náttúran, samfélagið og fyrirtækið.

Stundum spyr ég mig hvort alltaf eigi við að nota orðið sjálfbærni. Það er nefnilega mikilvægt að hugtakið sé notað á réttan hátt og það skyldi aldrei nota til að láta starfsemi líta út fyrir að vera grænni en hún er í raun og veru. Slíkt kallast grænþvottur og hann skulum við forðast eins og heitan eldinn. Grænþvottur minnkar traust og hindrar að árangur náist.

UFS-mælikvarði fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti

En hvað með allar þessar sjálfbærniskýrslur fyrirtækja. Um hvað snúast þær, hvernig tengjast þær sjálfbærnihugtakinu og af hverju eru þær mikilvægar? Á vefsíðu Festu – miðstöðvar um sjálfbærni er þessum spurningum svarað á skýran og skilmerkilegan hátt. Árið 1984, skömmu eftir að sjálfbærnihugtakið fékk byr undir báða vængi í kjölfar Brundtland-skýrslunnar, lagði fræðimaðurinn John Elkington til að fyrirtæki birtu uppgjör sem sneru ekki aðeins að efnahagslegum hagnaði eða tapi, heldur einnig að umhverfinu og samfélaginu. Á ensku er talað um P-in þrjú People, Planet, Profit. Nú hafa þessar áherslur verið útfærðar í svokallaðan UFS-mælikvarða sem mörg fyrirtæki þekkja vel. U stendur fyrir umhverfi, F fyrir félagslega þætti og S fyrir stjórnarhætti.

Sýnt hefur verið fram á að með því að huga að þessum þremur þáttum í allri kjarnastarfsemi fyrirtækis og birta trúverðugt uppgjör byggt á þeim laða fyrirtæki að sér starfsfólk, viðskiptavini og fjárfesta og minnka áhættu í rekstri til lengri tíma litið. Kauphallir víða um heim þrýsta nú á fyrirtæki að taka upp UFS-mælikvarða í allri upplýsingagjöf, þar á meðal er Kauphöllin hér á landi.

Það er nauðsynlegt að hafa góðan skilning á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbærri þróun og vera tilbúin að hagnýta sér þau til að takast á við þær risavöxnu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag; hvort sem það eru loftslagshamfarir, fátækt, stríð eða misskipting auðs.

Áskoranir af þessar stærð reyna mikið á okkur því þær þarfnast langtímahugsunar og heildarsýnar.

Þær má flokka í það sem kalla má viðráðanleg vandamál og illviðráðanleg vandamál eða wicked problems upp á enska tungu. Viðráðanlegu vandamálin geta verið flókin og erfið viðureignar en það er oft hægt að finna lausnir á þeim, það er hægt að afmarka vandamálið og leita lausna. Það er til dæmis flókið en viðráðanlegt vandamál að koma fólki til tunglsins. Á hinn bóginn einkennast svokölluð illviðráðanleg vandamál eins og eyðing vistkerfa, loftslagshamfarir, stríð og aukin stéttaskipting af því að allt sem þeim tengist er mjög flókið. Bara það eitt að átta sig á umfangi vandans og ráðandi breytum getur verið ævintýralega snúið auk þess sem ein varanleg lausn á vandanum er sjaldnast til.

En vandamál eru til að leysa þau, ekki satt? Ef við ætlum að leysa þessar stóru áskoranir þá tekst okkur það. Sá samtakamáttur sem við sáum í kórónuveirufaraldrinum sýnir að við getum staðið saman, hlustað á vísindin og aðlagast hratt.

Það er svo sannarlega ekki upplífgandi að hlusta dag eftir dag á fréttir af stríði og hitabylgjum víða um heim.

Sjálfbær framtíð er svarið

Hvað er til ráða? Sjálfbær framtíð er svarið. Framtíð þar sem við verndum og endurheimtum náttúru Jarðarinnar, þar sem mannréttindi eru virt, félagsleg réttindi í hávegum höfð og þar sem efnahagslífið vinnur með umhverfis- og félagslegum þáttum en ekki á móti þeim.

Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum; þjóðir heims, lítil og stór fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar. Og mikil er ábyrgð þjóðarleiðtoga og stórfyrirtækja.

Já, sjálfbær framtíð er svarið. Og alþjóðasamfélagið gerir sér grein fyrir því enda samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna árið 2015 að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun yrðu leiðarstef okkar til ársins 2030. Heimsmarkmiðin eru góður leiðarvísir að bjartari framtíð fyrir allt líf á Jörðinni. Þau eru 17 talsins og fela í sér fimm meginþemu; mannkynið, Jörðina, hagsæld, frið og samstarf. Markmiðin mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar. Markmiðin eru jafnframt algild og því hafa aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, Ísland þar á meðal, skuldbundið sig til að innleiða þau á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra árið 2030. Sveitarfélög á Íslandi hafa sum hver tekið heimsmarkmiðunum opnum örmum og það sama má segja um stjórnarráðið og ýmis fyrirtæki.

En við verðum að gera betur því við erum á eftir áætlun á mörgum sviðum sjálfbærni. Við verðum að halda vel á spöðunum og megum ekki missa sjónar á langtímamarkmiðinu. Náttúrunni og loftslaginu er nefnilega sama um lengd kjörtímabila og ársfjórðungslegan gróða fyrirtækja. Langtímasýn, þrautseigja og hugrekki er það sem við þurfum til að breyta því sem breyta þarf.

Að lokum vil ég nefna mikilvægi þverfræðilegrar nálgunar og samvinnu þegar tekist er á við þær stóru áskoranir sem að okkur steðja. Sjálfbærni er í eðli sínu þverfræðilegt viðfangsefni enda felur hún í sér að taka þarf tillit til margra mismunandi þátta; hvort sem þeir snúa að náttúru og umhverfi, félagslegri velferð eða efnahag. Með því að brjóta múra milli fagsviða, þjóða, stofnana og einstaklinga, hlusta á hvað hvert og eitt okkar hefur fram að færa, taka samtalið, já, byggja brýr milli ólíkrar þekkingar og reynsluheims, þá er ég viss um að okkur eru allir vegir færir.

Ég auglýsi hér með eftir kjörkuðum leiðtogum; stjórnmálafólki, forstjórum fyrirtækja og einstaklingum. Við þurfum á öllum að halda til að markmiðinu um sjálfbæran heim verði náð, heim sem við getum stolt arfleitt barnabörnin okkar að. Sýnið kjark og þor! Það er ekki eftir neinu að bíða.

Höfundur er Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands. Pistillinn var fyrst fluttur sem umhverfispistill í þættinum Samfélagið á Rás 1 þann 25. júní 2022.

Share