Dr. Guðrún Pétursdóttir hlýtur heiðursviðurkenningu FHK
Félag háskólakvenna veitti Dr. Guðrúnu Pétursdóttur heiðursviðurkenningu félagsins fyrir framlag hennar til rannsókna og vísinda og fyrir að vera einstök fyrirmynd og brautryðjandi. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, bauð félagskonum til móttöku í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og fór afhending viðurkenningarinnar fram þar.
Guðrún sem er dósent í fósturfræði og lífeðlisfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands hefur verið framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða frá 2005. Guðrún er með doktorsgráðu í taugalíffræði frá háskólanum í Osló, MA-gráðu í lífeðlisfræði frá Oxford-háskóla og BA-gráðu í sálarfræði frá Háskóla Íslands. Guðrún tók við viðurkenningunni úr hendi mennta- og menningarmálaráðherra.