Dagur jökla
Jöklar landsins eiga sannarlega stað í hjörtum landsmanna og það sannaðist vel þegar Alþjóðadegi jökla var fagnað í fyrsta sinn föstudaginn 21. mars. Troðfullt var á málþingi í Veröld - húsi Vigdísar og á opnun sýningarinnar „Kynslóðir jökla“ í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu.
Á málþinginu fluttu þeir Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, og Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávörp og vísindamennirnir Hrafnhildur Hannesdóttir, Andri Gunnarsson og Guðfinna Aðalgeirsdóttir fjölluðu um jöklabreytingar og framtíðarhorfur jökla bæði hér á landi og annars staðar. Þá kynnti rithöfundurinn og listamaðurinn Rán Flygenring nýja jöklamyndaseríu og sigurvegurum í jöklasamkeppni barna og ungmenna voru afhent verðlaun. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar HÍ, stýrði viðburðinum.
Í framhaldinu af málþinginu opnaði Andri Snær Magnason rithöfundur sýninguna „Kynslóðir jökla“ í Loftskeytastöðinni. Sýningin er ferðalag í gegnum sögu jöklabreytinga. Myndefni sýningarinnar spannar margar kynslóðir, allt frá fyrstu ljósmyndum af jöklum á Íslandi sem teknar voru í kringum 1890 til háupplausnar fjarkönnunargagna og framtíðarsviðsmynda um þróun jökla.
Sýningin verður opin í Loftskeytastöðinni til 12. apríl.
Hér er hægt að horfa á upptöku frá málþinginu.
Myndir frá viðburðinum















