
Háskóli Íslands gefur út árlega sjálfbærniskýrslu og eru þær nú orðnar þrjár talsins. Skýrslurnar eru fyrstar sinnar tegundar hjá íslenskum háskólum. Aukinn þrýstingur er á háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum.Í skýrslunum er horft yfir víðfeðmt starf HÍ út frá sjálfbærni og eru þær mikilvægt skref fyrir HÍ að verða leiðandi á sviði sjálfbærni. Sjálfbærnihugsun innan og utan HÍ er komin til að vera og eru árlegar sjálfbærniskýrslur mikilvægt verkfæri til að leggja mat á og vekja athygli á stöðu og mikilvægi sjálfbærni í öllu starfi skólans.
Sjálfbærniskýrslur HÍ eru unnar af Sjálfbærnistofnun HÍ að beiðni sjálfbærninefndar.
Tilgangur útgáfu árlegrar sjálfbærniskýrslu HÍ er margþættur en helst má nefna:
- Að fylgja eftir stefnu HÍ (HÍ26) þar sem sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af fjórum megináherslum en háskólinn vill vera leiðandi þegar kemur að sjálfbærni í kennslu, rannsóknum, rekstri, samstarfi og þjónustu við samfélagið.
- Taka saman stöðu sjálfbærni innan HÍ út frá mismunandi starfsemi.
- Kynna og auka skilning innan og utan HÍ á sjálfbærni og heimsmarkmiðunum.
- Nýta skýrslu fyrir alþjóðlega matslista háskóla.
- Leggja mat á umbætur og koma auga á tækifæri í sjálfbærnimálum háskólans.