Umhverfisbreytingar

Miklar breytingar eiga sér stað á loftslagi og náttúrufari, með víðtækum afleiðingum fyrir búsvæði og samfélög. Stofnun Sæmundar fróða hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum á sviði umhverfisbreytinga, og einnig nýtingar og verndar umhverfisins. Þeirra á meðal eru:

Okkur hættir við að taka ýmsum gæðum náttúrunnar sem sjálfsögðum og metum þau ekki til fjár, þegar hugað er að verðmæti staða eða kostnaði vegna framkvæmda.

En það er hægt að meta verðgildi þessara þátta og taka tillit til þeirra t.d. þegar nýtingarstefna svæða er mótuð. Skortur á hagrænu mati á fjölþættri þjónustu náttúrunnar leiðir oft til þess að ákvarðanir eru einungis  teknar  á forsendum um hagnað af beinni nýtingu auðlinda, en ekkert tillit tekið til annarra verðmæta sem spillast við þá nýtingu.

Heiðmörkin veitir ýmsa þjónustu s.s. vatn, veiði, við, jólatré og ber, fjölbreytta möguleika á útivist gangandi, hjólandi, ríðandi,skíðandi og akandi gesta. Hún veitir skjól og fegurð og mörgum finnst einber tilvist hennar vera mikils virði. Það er brýnt að finna leiðirtil að meta þessa þætti, þegar ákvarðanir eru teknar um hvernig nýta áHeiðmörkina.

Heiðmörk er því kjörið viðfangsefni til að rannsaka fjölþætta þjónustu náttúrunnar og meta hana hagrænt. Slík rannsókn hefur staðið um árabil og hafa fjölmargir aðilar sameinast um hana, þ.á.m. Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógrækt ríkisins við Mógilsá, Skógræktarfélag Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Garðabær og Orkuveita Reykjavíkur.

Kristín Eiríksdóttir, doktorsnemi í hagfræði, hefur unnið að verkefninu, auk Höllu Jóhannsdóttur og Gabriels Pic, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum.

Auk þeirra hafa fjölmargir  meistara- og grunnnemar verið aðstoðarmenn við rannsóknina, sem  styrkt er af Rannís og Orkuveitu Reykjavíkur. Verkefnisstjóri er Brynhildur Davíðsdóttir.

Coast Adapt - The Sea as Our Neighbour var fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni á vegum Northern Periphery Programme, sem fjallaði um hvernig smá samfélög við strendur Norður Atlantshafs aðlagast breytingum sem verða vegna hnattrænnar hlýnunar.

Sveitarfélög og rannsóknarstofnanir á Írlandi, í Skotlandi og norður Noregi tóku þátt auk Árborgar og Mýrdalshrepps, en Stofnun Sæmundar fróða stýrði íslenska verkþættinum. Kannaðar voru þær ógnir sem steðja að  hverju þessara samfélaga, hvaða augum íbúar og stjórnvöld líta þær og hvernig menn eru í stakk búnir til að mæta þeim.

Í tengslum við vinnufundi verkefnisins á hverjum stað, voru fundir opnir almenningi. Opin skoðanaskipti milli almennra íbúa og sérfræðinga vörpuðu ljósi á ýmis viðfangsefni sem þarf að sinna, og er áhersla lögð á að menn deili bæði reynslu og úrræðum við hinum margvíslegu vandamálum sem umhverfisbreytingar hafa í för með sér.

Verkhópur á Íslandi:

 • Ásgeir Magnússon sveitarstjóri í Vík
 • Ásdís Jónsdóttir mannfræðingur
 • Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Árborgar
 • Guðrún Pétursdótttir SSF
 • Katrín Georgsdóttir umhverfisfræðingur

Verkefnisstjóri:

Guðrún Pétursdóttir

SÓLEY - Langtímaáhrif loftslagsbreytinga á plöntur og gróður á Íslandi

Meðal vísindamanna er vart um það deilt lengur að jörðin er að hlýna, aðallega vegna athafna mannsins. Loftslagsbreytingar verða líklega mestar á háum breiddargráðum og því er spáð að framundir miðja 21. öld muni hlýna um ≥0,2°C á áratug á Íslandi.

Fenólógískar breytingar (þ.e. á tímasetningu þroskunarfræðilegra atburða), ekki síst í blómgun plantna, eru taldar einn næmasti líffræðilegi mælikvarðinn á hnattræna hlýnun. Breytingar á blómgunartíma geta haft áhrif á dreifingu auðlinda innan plöntunnar, framlag til vaxtartengdra þátta, samkeppni um frjóbera, skörun á dreifingartíma vinddreifðra frjókorna, afrán á blómum, aldinum og fræjum og breytta nýliðun í kjölfar áhrifa á fræframleiðslu og lífvænleika fræja.

Markmið verkefnisins var að greina og skilja áhrif loftslagsbreytinga á plöntur og gróður á Íslandi. Fyrri hluti verkefnisins, sem sneri að áhrifum á blómgunartíma plantna, hófst sumarið 2009.

Fylgst var með blómgun níu tegunda ávöldum svæðum sem endurspegla breytileika í veðurfari og lengd vaxtartíma. Níu algengar tegundir höfðu verið valdar en á hverju svæði var fylgst með ca. 3 - 9 tegundum. Blómgun var skráð eftir samræmdri aðferðafræði á 3.-4. daga fresti þar til aldinmyndun hófst.

Verkefnið lagði til mikilvægar upplýsingar í gagnagrunn um lífríki Íslands, sem gefur möguleika á samanburði við hliðstæðar erlendar rannsóknir. Verkefnið skilaði þekkingu á náttúrufari og þróun þess heim í hérað og varð áhugaverður efniviður í fræðslu t.d. í þjóðgörðum,  grunn- og framhaldsskólum og fyrir ýmis rannsóknaverkefni á háskólastigi.

Samstarf:

Háskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins

Fjármögnun:

Umhverfis - og orkusjóður OR styrkti verkefnið

Verkhópur:

 • Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, SSf
 • Kristín Svavarsdóttir, Landgræðslu ríkisins

Verkefnisstjóri:

Þóra Ellen Þórhalssdóttir, prófessor

Ágengar aðfluttar tegundir hafa verið taldar meðal stærstu áhrifaþátta hnattrænna umhverfisbreytinga. Fjölmörg dæmi eru til um neikvæð áhrif ágengra tegunda á vistkerfi og efnahag landa. Ágengar tegundir eru taldar einn stærsti áhrifavaldurinn í útrýmingu tegunda, ekki síst í ferskvatnsvistkerfum og á eyjum, auk þess sem þær geta leitt til einsleitari vistkerfa.

Aukin þekking á ágengum tegundum og hvernig hægt er að bregðast við þeim er þess vegna afar mikilvæg svo draga megi úr neikvæðum áhrifum þeirra. Fáar rannsóknir eru til um slíkt á Íslandi, og nær eingöngu vistfræðilegar, og stefnan hefur enn ekki veriðmótuð í þessum mikilvæga málaflokki.

Samstarf:

SSf og Landgræðsla ríkisins, einnig samstarf við UST og SEEDS

Verkhópur:

 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson (SSf),
 • Kristín Svavarsdóttir (Lr)
 • auk annarra á Lr og innan HÍ

Fjármögnun:

Hefur hlotið forverkefnisstyrk Rannís

Verkefnisstjóri:

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Unnið er að gerð lifandi stafræns korts af strand- og hafsvæðum á norðurslóðum, til þess m.a. að bæta viðbrögð við mengunarslysum á sjó. Auk hefðbundins kortagunns, eru skráðar viðbraðgsstöðvar og útbúnaður þeirra, svæði þar sem lífríki er viðkvæmt, rauntímaupplýsingar um veður og vinda, hitastig lofts og sjávar, strauma og styrk þeirra.

Einnig eru settar inn upplýsingar um mengunarslys sem orðið hafa og viðbrögð við þeim og afleiðingar þeirra, einnig líkön um hvernig olía myndi breiðast út ef hún færi í sjóinn við gildandi aðstæður á hverjum tíma.

Íslenski verkþátturinn felst í m.a. í upplýsingum um viðbúnað gegn olíumengun í íslenskri lögsögu, og samhæfingu og gerð gagnvirkra land-og sjókorta með upplýsingum um  skipaumferð á viðkomandi svæði,  veðurspár, raunveður og  sjólag og aðra mögulega áhættuþætti.

Íslenski verkþátturinn er undir stjórn Guðrúnar Pétursdóttur en Þorsteinn Helgi Steinarsson verkfræðingur hjá Ásverki og Sigríður Ragna Sverrisdóttir vinna að verkefninu.

Styrkt af Northern and Arctic Periphery Program.

Vefur verkefnisins

Að verkefninu vinna, auk Stofnunar Sæmundar fróða:

 • Oulu Háskóli
 • Umhverfisstofnun Finnlands
 • University of Highlands and Islands, Skotlandi
 • Meteorologisk Institutt, Norge
 • Norska Landhelgisgæslan
 • Scottish National Heritage