Header Paragraph

Fyrsta sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands komin út

Image
""

Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands fyrir árið 2021 er nú aðgengileg en skýrslan er fyrsta sinnar tegundar hjá íslenskum háskólum og ber Stofnun Sæmundar fróða ábyrgð á útgáfu hennar. Aukinn þrýstingur er á háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum. 

Í skýrslunni er horft yfir víðfeðmt starf HÍ út frá sjálfbærni og er hún mikilvægt skref fyrir HÍ að verða leiðandi á því sviði. Sjálfbærnihugsun innan og utan HÍ er komin til að vera og eru árlegar sjálfbærniskýrslur mikilvægt verkfæri til að leggja mat á og vekja athygli á stöðu og mikilvægi sjálfbærni í öllu starfi skólans. Mikilvægt er að hafa í huga að aðferðafræðin að baki skýrslunni verður þróuð áfram í samstarfi við stjórnsýslu og fræðasvið við gerð næstu skýrslu.

Eitt af markmiðum sjálfbærniskýrslunnar var að leggja mat á umbætur og koma auga á tækifæri í sjálfbærnimálum innan HÍ. Tillögur skýrsluhöfunda að tækifærum til úrbóta eru byggðar á vinnu þeirra og tillögum sem bárust frá starfsfólki HÍ.

Skýrsluna í heild sinni og forsendur hennar má nú finna á vef Stofnunar Sæmundar fróða.