Kynningarmynd fyrir þættina Á valdi náttúruaflanna

Heimildaþáttaröðin Á valdi náttúruaflanna hóf göngu sína á RÚV þriðjudagskvöldið 11. nóvember og verður næsti þáttur sýndur þriðjudagskvöldið 18. nóvember. Þættirnir segja frá því hvernig norrænu ríkin takast á við ólíkar tegundir náttúruhamfara og hvernig draga má úr skaða og efla seiglu samfélaga gagnvart náttúruvá. 

Þættirnir byggja á norræna rannsóknarverkefninu NORDRESS – The Nordic Centre of Excellence on Resilience and Societal Security, sem fékk árið 2014 rúmlega 400 milljóna króna styrk frá NordForsk til að koma á fót öndvegissetri um rannsóknir á því hvernig auka megi öryggi samfélaga gagnvart náttúruhamförum. 

Öndvegissetrið var hýst og stýrt af Sjálfbærnistofnun HÍ (sem þá hét Stofnun Sæmundar fróða) og fór Guðrún Pétursdóttur, fyrrum forstöðmaður stofnunarinnar fyrir verkefninu, ásamt Guðrúnu heitinni Gísladóttur, prófessor í landfræði. 

Í verkefninu, sem stóð yfir í fimm ár, sameinaðist fjölbreyttur hópur vísindafólks og sérfræðinga frá Norðurlöndunum í því sameiginlega markmiði að skilja betur og bregðast við þeim ógnunum sem náttúran getur haft í för með sér. Lögð var áhersla á ólíkar tegundir náttúruvá, frá skógareldum í Finnlandi og hamfararigningum í Danmörku til sjávarflóða í Svíþjóð, berghlaupa í Noregi og eldvirkni og snjóflóða á Íslandi. 

Við hjá Sjálfbærnistofnun erum stolt af því að eiga rætur í þessu metnaðarfulla verkefni sem lagði grunn að víðtæku norrænu samstarfi á sviði öryggis og samfélagslegrar seiglu. Heimildaþættirnir endurspegla vel mikilvægi þeirrar vinnu og sýna hvernig vísindi, samvinna og traust geta skapað raunverulegan mun þegar náttúruöflin láta til sín taka. 

Þættirnir Á valdi náttúruaflanna eru sýndir á RÚV 11. og 18. nóvember og einnig aðgengilegir á www.ruv.is eftir sýningu. 

Lesa má nánar um þættina í viðtali við Guðrúnu Pétursdóttur á vef Háskóla Íslands.

Share